12
Views

Nina Simone var alveg hreint magnaður flytjandi sem hafði mikil áhrif á marga þá tónlistarmenn sem hafa blásið okkur andgift í brjóst og fannst Birtu Rós þess vegna alveg tilvalið að heiðra minningu hennar með tónleikum. Nina samdi kannski ekki alla sína helstu smelli en hún flutti þá af þvílíkri snilld að hún hefði alveg eins getað gert það, röddin magnþrungin, píanóleikurinn dreymandi, útsetningarnar grípandi og tónlistin flæddi um í frelsi sköpunargáfu hennar og því var valið á meðflytjendum Birtu ekki auðvelt og valinn maður í hverju hlutverki, Steingrímur Karl Teague tekur að sér þann helming Ninu sem píanóleikurinn er, Birgir Steinn spilar á bassa af innsýni og Þorvaldur Halldórsson leikur á trommur af sinni alkunnu snilld … og  nú kæru tónlistarunnendur er komið að ykkur að njóta.

Birta Rós flutti nokkur lög Nina Simone á Erlingskvöldi sem var haldið í Bókasafni Reykjanesbæjar þann 21. mars síðastliðinn.

Tónleikar tríósins verða haldnir í Bíósal Duus safnahúsa miðvikudaginn 11. desember og hefjast klukkan 20.

Enginn aðgangseyrir á viðburðinn og öll velkomin.


Birta Rós Sigurjónsdóttir hefur hreinlega verið í tónlistarskóla næstum alla sína æfi, byrjaði á blokkflautu í Tónlistarskólanum í Keflavík, þar sem hún lærði einnig á píanó, fiðlu, fagott og klassískan söng, þótti hún snemma hafa ágæta söngrödd, en klassíkin hafði ekki nógu gott hald á henni og sótti hún þá um í jazzsöng í tónlistarskóla FÍH, lauk hún þaðan námi árið 2008, og þar sem hún er ekkert rosalega framfærin og var ekki með þorið til að koma sér á framfæri, tók hún bissnesshugsunina á þetta og fór að læra á bassa svo að fólk hefði kannski líka stundum samband við hana, það virkaði. Nú kennir hún í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Tónlistarskólum Suðurnesjabæjar

Birta hefur tekið þátt í fjölmörgum verkefnum og má þar nefna: Duld, The Soundtation Project, Rolf Hausbentner band, Skuggabaldur, Smellur, fór með hlutverk Fruma Sarah í Fiðlaranum á þakinu sem Tónlistarskóli Reykjanesbæjar og Norðuróp settu upp, einnig var hún í hátíðarkórnum þegar flutt voru Requiem Mozart og Requiem Verdi, Kór Keflavíkurkirkju, einsöngur við misgleðilegar athafnir, söng hlutverk Maríu Magdalenu þegar Kór Keflavíkurkirkju setti upp Jesus Christ Superstar.

Birgir Steinn Theodorsson byrjaði ungur að læra málmblástur. Lærði meðal annars á Túbu, horn og trompet. Á unglingsaldri fór rokk og popp tónlist að hafa mikil áhrif og fór hann þar af leiðandi að læra á rafbassa. Birgir Var þá í nokkrum hljómsveitum sem rafbassaleikari og hlaut mikla reynslu af því að spila fyrir fólk meðal annars með því að spila í messu alla sunnudaga um árabil. Það var samt ekki fyrr en seint á unglingsaldrinum sem að Jazzinn fór að taka yfir og með því hljóðfærið kontrabassinn. Birgir Steinn flutti til Danmerkur með fjölskyldu sinni og fór að læra á kontrabassa. Þegar komið var aftur heim var farið beint í Fíh og lauk hann þar burtfaraprófi vorið 2015. Eftir Fíh fór hann í framhaldsnám til Berlínar. Ásamt Berlín dvaldi hann í eitt ár í New York og sinnti þar tónlistinni. Birgir Steinn hefur mikla reynslu í tónleikahadi, upptökum og samspili. Hann kennir nú á raf og kontrabassa við tónlistarskóla Garðabæjar og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar auk þess að spila hin ýmsu gigg og hljóðrita bassa í ýmisskonar verkefnum.

Steingrímur Karl Teague útskrifaðist úr Tónlistarskóla FÍH árið 2008, Hann hefur tekið þátt í mörgum verkefnum og má þar helst nefna Ókind, Ojba Rasta, Moses Hightower, Of Monsters and Men, Hipsumhaps og Silva og Steini. Hann kennir einnig í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Þorvaldur Halldórsson hóf ungur tónlistarnám við Tónlistarskólann í Garði og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Útskrifaðist með burtfararpróf frá Tónlistarskóla FÍH 2009 og með B.Mus. gráðu frá Berklee College of Music í Boston 2015. Hefur spilað í ýmsum hljómsveitum, þá helst hljómsveitinni Valdimar, en m.a. Hipsumhaps, Stórsveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og tekið þátt í leiksýningum í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Kennari við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar 2008-2013 og svo frá 2015 til dagsins í dag.


Tónleikaröð Ellýjar er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, Menningarsjóði Reykjanesbæjar, Reykjanesapóteki, HS Orku og Samkaup í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Bókasafn Reykjanesbæjar og Hljómahöll.

Comments are closed.