15
Views

Tónleikar tríósins verða haldnir í Miðju Bókasafns Reykjanesbæjar laugardaginn 23. nóvember og hefjast klukkan 20.

Að öllum líkindum verða þetta síðustu tónleikarnir í núverandi húsnæði bókasafnsins en flutningur safnsins í Hljómahöll er fyrirhugaður um næstu áramót.

Enginn aðgangseyrir á viðburðinn og öll velkomin.

Þeir félagar léku í byrjun sumars á nokkrum tónleikum í Noregi við góðar undirtektir, meðal annars á djassklúbbnum Herr Nilsen í Osló þar sem að hinn frábæri gítarleikari Lage Lund var sérstakur gestur tríósins. Á efniskránni verða frumsamin lög eftir Andrés auk þess að einstaka vel valdir djasshúsgangar fá að fljóta með.


Andrés Þór lauk burtfararprófi frá tónlistarskóla FÍH, bachelorsgráðu og mastersgráðu frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Den Haag í Hollandi þar sem hann lærði hjá Peter Niewerf, Wim Bronnenberg, Hein van der Geyn og John Ruocco auk þess að sækja masterclassa og workshop hjá hljóðfæraleikurum eins og Avishai Cohen, Kurt Rosenwinkel, Kenny Wheeler og John Abercrombie. Andrés flutti heim frá Hollandi árið 2004 og hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi síðan og gefið út fjölda platna í eigin nafni og í ýmsum samstarfsverkefnum sem hafa margar hverjar hlotið mikið lof jafnt hérlendis sem erlendis. Andrés starfar einnig sem tónlistarkennari og deildarstjóri við MÍT (Menntaskóla í tónlist) og sem aðjúnkt við rytmíska kennaradeild tónlistardeildar Listaháskóla Íslands. Árið 2014 var Andrés útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar í formi tilnefninga til ýmissa verðlauna, hvatningarverðlaun og listamannalaun. Auk þess að hafa starfað með mörgum helstu tónlistarmönnum á Íslandi hefur Andrés komið fram á tónleikum með mörgum heimsþekktum djasstónlistarmönnum á borð við Ari Hoenig, Orlando LeFleming, Colin Stranahan, Jens Larsen, Mariu Schneider og Perico Sambeat. Andrés hefur komið fram víða á Íslandi og í Hollandi, Belgíu, Luxemburg, Frakklandi, Tékklandi, Slóvakíu, Noregi, Spáni, Bandaríkjunum og Þýskalandi. 

Bárður Reinert Poulsen er skapandi og lagrænn bassaleikari og lagahöfundur. Hann er fæddur og uppalinn í Færeyjum en flutti til Noregs árið 2011 þar sem hann stundaði nám við hina þekktu djassdeild við tónlistarháskólann í Þrándheimi, þaðan sem hann lauk bakkalárgráðu árið 2014. Árið 2020 lauk hann mastersgráðu í music performance frá Tónlistarháskólanum í Osló. Bárður er búsettur í Osló og er lykilmaður í hinni ólgandi jazzsenu þar í borg. Hann hefur verið virkur í fjölbreyttum verkefnum, til að mynda: Espen Berg Trio, Wako, The Fjords, Karl Bjora’s Aperture, auk þess að fara í tónleikaferðir með Tore Brunborg trio, Silje Nergaard og mörgum fleirum. Hann hefur komið fram og farið í tónleikaferðir í sautján Evrópulöndum og fjórar tónleikaferið í Japan og Kína, auk þess að koma fram víðsvegar í Noregi. Bassaleikur hans ber vott um nákvæmni en er einnig leikrænn en á sama tíma meðvitaður um umhverfi sitt. 

Frederik Villmow hefur getið sér gott orð sem eftirsóttur trommari. Hann er búsettur í Osló og er virkur í verkefnum eins og Frederik Villmow Trio/Kvartett, Cecilie Grundt kvartett og Olga Konkova Project. Hann hefur unnið með fjölbreyttum listamönnum á borð við Tomas Franck (DK), Carl Winther (DK), Vigleik Storaas (NO), Felix Peikli (NO), Bjørn Vidar Solli (NO), Will Vinson (UK), John Pål Inderberg (NO), Sigurdur Flosason (IS), Andrés Thor (IS), Mats Holmquist Big Band (SWE) and Gabriel Pérez´ SoundTrip Orchestra featuring Chris Potter (ARG/GER/USA). Hann hefur gefið út fjórar plötur í sínu nafni sem hafa allar hlotið góð viðbrögð frá alþjóðlegum fréttamiðlum á borð við Japan Jazz Magazine, Jazz Life Japan, Jazzthing Germany, JazzDK, og UK Vibe. Nýjasta plata hans ‘New York Session’ skartar þremur af færustu djassleikurum New York borgar, þeim Nicole Glover, Alexander Claffy og David Kikoski. 

Tónleikaferðir sem hann hefur farið í hafa verið til Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Kúveit, Englands, Finnlands, Eistlands, Grikklands, Frakklands, Belgíu, Hollands, Þýskalands, Póllands, Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs og Íslands.


Tónleikaröð Ellýjar er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, Menningarsjóði Reykjanesbæjar, Reykjanesapóteki, HS Orku og Samkaup í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Bókasafn Reykjanesbæjar og Hljómahöll.

Comments are closed.