Á tónleikunum verða flutt lög af nýútgefinni plötu hljómsveitarinnar, Uneven Equator, sem kom út í lok ágústmánaðar og hefjast tónleikarnir klukkan 20:00.
Enginn aðgangseyrir á viðburðinn og öll velkomin.
Hljómsveitina skipa:
Ásgeir Ásgeirsson (oud)
Haukur Gröndal (klarinett)
Ingi Bjarni Skúlason (píanó)
Magnús Trygvason Eliassen (trommur)
Sigmar Þór Matthíasson (kontrabassi og tónsmíðar)
Árið 2021 kom út hljómplatan Meridian Metaphor frá bassaleikaranum og tónskáldinu Sigmari Þór Matthíassyni. Á plötunni kvað við nýjan tón í lagasmíðum Sigmars en tónlistin er undir miklum áhrifum frá austrænni heimstónlist sem blandast við nútímalegan djass á áhugaverðan hátt. Þannig má segja að áhrifa gæti bæði úr austri og vestri þar sem Sigmar bregður upp einskonar tón-myndlíkingum með fjölbreyttum skírskotunum í fólk, staði og upplifanir sem hafa mótað hann í gegnum tíðina.
Platan hlaut gríðarlega góðar viðtökur bæði hér heima og erlendis, m.a. fimm stjörnu dóm og umfjöllun í Morgunblaðinu auk þess sem ritað var um plötuna í hinu virta breska tónlistartímariti The Wire. Fyrir plötuna hlaut Sigmar og hljómsveitin samtals fjórar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022 og hreppti ein verðlaun – Flytjandi ársins (hópar) í flokki djass- og blústónlistar.
Nú er að koma út ný plata, sem ber titilinn Uneven Equator, og er einskonar rökrétt en þó sjálfstætt framhald af Meridian Metaphor, þar sem söngur og strengjahljóðfæri bætast við og stækka þannig hljóðheiminn – nútímadjass sem blandast við austræna heimstónlist á frumlegan hátt. Platan var hljóðrituð í mars og apríl síðastliðnum og kemur út föstudaginn 30. ágúst, bæði á glæsilegum vínyl en auk þess á öllum helstu streymisveitum.
Hljómsveit Sigmars hefur komið fram víða um land undanfarin fjögur ár, m.a. á stórum útgáfutónleikum í Hörpu, á Jazzhátíð Reykjavíkur og Jazzhátíð Garðabæjar og hjá Múlanum Jazzklúbbi í Reykjavík, í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði, Menningarhúsinu Bergi á Dalvík, Alþýðuhúsinu á Siglufirði, Edinborgarhúsinu á Ísafirði, hjá Kalman Listafélagi á Akranesi og Jazzfjelagi Suðurnesjabæjar í Sandgerði. Hljómsveitin kemur nú í fyrsta sinn fram í Reykjanesbæ í samstarfi við Tónlistarfélagið Ellý og heldur tónleika í Bergi í Hljómahöll fimmtudagskvöldið 12. september kl. 20:00.
Bassaleikarinn og tónskáldið Sigmar Þór Matthíasson hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi um árabil. Hann lauk framhalds- og burtfararprófi frá djassdeild Tónlistarskóla FÍH árið 2012. Haustið 2013 hóf hann framhaldsnám við tónlistardeild hins virta bandaríska háskóla The New School í New York. Þaðan útskrifaðist hann með láði vorið 2016 með BFA gráðu í jazz- og nútímatónlist, þar sem hann hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir næstbesta námsárangurinn (Salutatorian). Sigmar hefur samið og útsett verk m.a. fyrir Stórsveit Reykjavíkur og hefur leikið með öllu helsta tónlistarfólki þjóðarinnar. Auk þess hefur Sigmar komið fram á stórum tónlistarhátíðum og tónleikahúsum hér heima og erlendis, t.d. Jazzhátíð Reykjavíkur, Iceland Airwaves, Carnegie Hall í New York, London Jazz Festival í Englandi, Bern Jazz Festival í Sviss, Oslo Jazzfestival í Noregi, Jazz Finland Festival í Helsinki og Nordic Jazz Festival í Washington DC í Bandaríkjunum. Auk eigin sóló verkefna er Sigmar meðlimur í hljómsveitinni Brek. Árið 2018 gaf Sigmar út sína fyrstu sóló plötu, Áróra. Fyrir útgáfuna hlaut Sigmar tvennar tilnefningar til Íslensku Tónlistarverðlaunanna í flokki djass- og blústónlistar það ár, fyrir tónverk ársins og sem lagahöfundur ársins. Árið 2021 kom svo út önnur sólóplata Sigmars sem ber nafnið Meridian Metaphor og kom út á vegum Reykjavík Record Shop útgáfunnar. Sú plata hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur bæði hér heima og erlendis síðastliðin misseri. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022 var Sigmar tilnefndur í fimm flokkum – fyrir plötu, lagahöfund, tónverk og flytjanda ársins í Jazz & blús og fyrir plötu ársins í Þjóðlaga- og heimstónlist. Það var gríðarlegur heiður að hljóta tvenn verðlaun – Flytjandi ársins (hópar) í djass- og blústónlist auk þess sem fyrsta plata hljómsveitarinnar, Brek, var valin Plata ársins í flokki þjóðlaga- og heimstónlistar. Meðfram starfi sínu sem tónskáld og tónlistarflytjandi starfar Sigmar sem tónlistarkennari og aðstoðarskólastjóri hjá Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts sem starfrækt er af Reykjavíkurborg.
Ásgeir Ásgeirsson er einn fremsti og fjölhæfasti gítarleikari Íslands og er jafnvígur á marga ólíka stíla svo sem popp, rokk, kántrý, djass og balkantónlist. Einnig er Ásgeir mjög eftirsóttur undirleikari en hann kemur reglulega fram með Páli Óskari Hjálmtýssyni. Ásgeir hefur leikið inn á u.þ.b. eitt hundrað hljómplötur, á yfir fimmtíu frumsamin lög á skrá hjá STEF. Ásgeir hefur verið alloft tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunana fyrir lagasmíðar sínar í popp/rokk, djassflokki og opnum flokki. Ásgeir hefur á rúmlega tuttugu ára ferli sínum sem atvinnutónlistarmaður leikið með öllum fremstu tónlistarmönnum landsins, sem og allmörgum þekktum erlendum hljóðfæraleikurum, s.s. Dave Weckl, Guthrie Govan, Chris Cheek, Seamus Blake, Ingrid Jensen, Borislav Zgurovski og Claudio Spieler og Hanan El frá Egyptalandi. Ásgeir útskrifaðist sem djasseinleikari frá Tónlistarskóla FÍH og nam framhaldsnám í djassgítarleik í Conservatorium van Amsterdam frá 1999 til 2001. Árið 2006 hóf Ásgeir að nema balkantónlist en Ásgeir hefur farið fjölmargar námsferðir til Búlgaríu, Grikklands og Tyrklands og lært á þjóðlagagítara þessara landa frá fremstu kennurum og tónlistarmönnum í þessum löndum og kemur reglulega fram á tónleikum og hljómplötum sem flytjandi á tamboura, bouzouki, saz baglama og oud. Ásgeir hefur gefið út tvær sólóplötur; Passing through 2006 og Trio 2016. Ásgeir hefur verið kennari við Tónlistarskóla FÍH frá árinu 2001. Ásgeir var bæjarlistamaður Kópavogs 2016.
Haukur Gröndal er klarínett- og saxófónleikari, útsetjari og tónsmiður. Hann nam við Tónlistarskóla Garðabæjar og Tónlistarskóla FÍH á árunum 1984 til 1997. Kennarar hans við FÍH voru meðal annarra Sigurður Flosason og Stefán S. Stefánsson. Haukur tók burtfararpróf frá Tónlistarskóla FÍH vorið 1997. Árið 2004 lauk Haukur mastersgráðu í saxófónleik frá Rytmisk Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn. Kennarar hans þar voru meðal annarra Frederik Lundin og Lars Möller. Haukur sótti einkatíma í New York 2001 og 2003 hjá meðal annarra Chris Speed, David Binney og David Kraukauer, Helsinki 2003 og Plovdiv í Búlgaríu 2006 hjá klarínettleikaranum Petko Radev. Haukur hefur komið fram á tónleikum um öll Norðurlönd og víðar með ýmsum hljómsveitum, hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna tvívegis, leikið inná fjölmargar hljómplötur, unnið við upptökustjórn, útsett fyrir ýmsar hljómsveitir og svo mætti lengi telja.
Ingi Bjarni Skúlason lagði stund á djasspíanónám í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan árið 2011. Því næst lauk hann bachelor prófi við Konunglega Tónlistarháskólanum (Koninklijk Conservatorium) í Den Haag vorið 2016. Vorið 2018 lauk hann sérhæfðu mastersnámi í tónlist sem kallast Nordic Master: The Composing Musician. Námið fór fram í Gautaborg, Kaupmannahöfn og Osló. Ingi Bjarni hefur þó nokkrum sinnum komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur. Einnig hefur hann spilað á alþjóðlegum djasshátíðum líkt og Copenhagen Jazz Festival, Vilnius Jazz Festival í Litháen, Lillehammer Jazz Festival í Noregi og Jazz in Duketown í Hollandi. Þar að auki hefur hann komið fram á ýmsum minni tónleikum á Íslandi, Svíþjóð, Eistlandi, Lettland, Færeyjum, Belgíu og Hollandi. Í stuttu máli mætti segja að Ingi Bjarni hefur leikið eigin tónsmíðar með fjölda fólks á Íslandi og í Evrópu. Ásamt því að vera virkur tónlistarflytjandi hefur Ingi Bjarni fengist við kennslu og undirleik.
Magnús Trygvason Eliassen hefur stundað tónlistarnám frá átta ára aldri. Hann nam við Tónlistarskóla FÍH árin 2004 til 2010 og hlaut vorið 2008 skólagjaldastyrk FÍH vegna góðrar frammistöðu í námi og þáttöku hans í nokkrum útskriftarprófum nemenda skólans. Magnús stundaði einnig nám við NTNU í Þrándheimi og naut þar handleiðslu Tor Haugerud, Ernst Wiggo Sandbakk og fleiri frábærra trymbla.
Undanfarin ár hefur Magnús verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi og unnið með fjölmörgum tónlistarmönnum og hljómsveitum s.s. Eyþóri Gunnarssyni, Ellen Kristjánsdóttur, Kristjönu Stefánsdóttur, Tómasi R. Einarssyni, Sigríði Thorlacius, Steingrími Karl Teague, hljómsveitunum ADHD (sem fékk íslensku tónlistarverðlaunin 2009 fyrir samnefnda plötu), Amiinu, Sin Fang, K-tríó, Moses Hightower, múm o.fl. Magnús hefur einnig tekið þátt í keppninni Young Nordic Jazz Comets fjórum sinnum og tvisvar verið í vinningshljómsveitum, K-tríó og Reginfirra.
Tónleikaröð Ellýjar er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, Menningarsjóði Reykjanesbæjar, Reykjanesapóteki, HS Orku og Samkaup í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Bókasafn Reykjanesbæjar og Hljómahöll.