27
Views

Leiknar verða þekktar söngperlur sveifluáranna en einnig áratuganna sem á eftir fylgdu ásamt frumsömdu efni eftir Marínu og aðra hljómsveitarmeðlimi, í nýjum útsetningum eftir meðlimi hljómsveitarinnar.

Enginn aðgangseyrir og öll velkomin á viðburðinn.

Eiríkur Rafn Stefánsson lærði á trompet við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og síðar í Tónlistarskóla FÍH þaðan sem hann lauk bæði kennaradeild og framhaldsprófi í rytmískum trompetleik. Síðar lá leiðin í Tónlistarháskólann í Amsterdam þar sem Eiríkur nam djassútsetningar- og tónsmíðar þaðan sem hann kláraði B.Mus. vorið 2019. Eiríkur hefur verið virkur trompetleikari og útsetjari, bæði hér heima sem og erlendis. Hann hefur spilað meðal annars með Stórsveit Reykjavíkur, Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar, hljómsveitinni Valdimar og Lúðrasveit Hafnarfjarðar, auk þess að spila í hinum ýmsu verkefnum og upptökum. Sem útsetjari hefur hann meðal annars skrifað fyrir Stórsveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Stórsveit Tónlistarhússins í Amsterdam (Jazzorkest van het Concertgebouw), Nemendastórsveit Hollands (Nederlands Jazzorkest) og Samtök íslenskra lúðrasveita. Eiríkur kennir á trompet við Skólahljómsveit Kópavogs, fræðigreinar við Menntaskóla í Tónlist ásamt því að kenna útsetningar við Listaháskóla Íslands.

Stefán Ómar Jakobsson básúnuleikari hefur starfað opinberlega við tónlist frá 1984 stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan kennaranámi 1985 eftir það stundaði hann nám við Hochschule für Muzik und Darstellende Kunst í Graz í Austurríki og síðar við Berklee College of Music í Boston. Stefán hefur leikið með Sinfóinlíuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í ýmsum verkefnum, leikið í mörgum söngleikja- og óperuuppfærslum. Stjórnaði Lúðrasveit Hafnarfjarðar frá 1988 til l2004 og hefur verið fastur básúnuleikari í Stórsveit Reykjavíkur síðastliðin tuttugu ár.       

Hann stofnaði hljómsveit sína Stebbi Ó swingsextett árið 2012 sem á undanförnum árum leikið víða á höfuborgarsvæðinu, sérstaklega fyrir Lindy-hop dansara. Stefán hefur einnig stofnað smærri samspil eins og Jazztríó Stebba Ó. með þeim Aroni Erni Óskarssyni á gítar og Jóni Rafnssyni á bassa. Nýjasta samspilsútgáfan er jazzdúó kontrabassi og básúna með Jóni Rafnssyni. Stefán Ómar gaf út ljóðabókina Dimmrúnir árið 2015 og er með skáldsöguna Huldureiti í smíðum.

Frá árinu 1988 hefur Stefán Ómar kennt við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og frá 2016 verið aðstoðarskólastjóri við sama skóla.

Björgvin Ragnar Hjálmarsson hóf saxófónnám átta ára gamall við Tónlistarskóla Seltjarnarness. Hann lauk Bachelor prófi frá Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi vorið 2022. Björgvin hefur tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum á sviði jazz- og popptónlistar undanfarin ár. Hann hefur m.a. komið fram með Stórsveit Reykjavíkur, SJS Big Band, Amabadama, Júníus Meyvant o.fl. Ásamt því að vera sjálfstætt starfandi tónlistarmaður starfar Björgvin sem tónlistarkennari í Skólahljómsveit Kópavogs og Tónlistarskóla Seltjarnarness.

Jón Rafnsson hefur starfað við tónlist frá unglingsárum. Tónlistarmenntunin var í fyrstu sjálfsnám á rafbassa með tilheyrandi spilamennsku, en síðar stundaði hann klassískt tónlistarnám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, á fiðlu, píanó og kontrabassa. Árið 1983 hóf hann framhaldsnám í kontrabassaleik hjá Prof. Thorvald Fredin í Stokkhólmi auk þess að stunda nám við Tónlistarkennaraháskólann í Stokkhólmi (SMI – Stockholms musikpedagogiska institut) og lauk þaðan prófi árið 1987. Jón hefur allt frá því hann flutti heim frá Svíþjóð árið 1990 verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið jöfnum höndum hina ýmsu tónlistarstíla. Hann er eftirsóttur bassaleikari og hefur leikið inn á fjölda hljómplatna og starfar einnig sem tónlistarkennari. Auk þess að leika með ES Sextett, leikur Jón með tríóunum Guitar Islancio og DJÄSS auk fjölda annarra verkefna.

Vignir Þór Stefánsson byrjaði átta ára gamall að læra á píanó í Tónlistarskóla Árnessýslu. Átján ára gamall var hann farinn að spila á dansleikjum með hljómsveitinni Karma.

Vignir stundaði djasspíanónám við Tónlistarskóla FÍH og lauk einnig tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Árið 1995 fluttist Vignir til Haag í Hollandi til að leggja stund á djasspíanó í Konunglega Tónlistarháskólanum í Haag. Þaðan lauk hann mastersprófi vorið 2001. Samhliða náminu lék Vignir með djasshljómsveitum af öllum stærðum og gerðum. Hann lék einnig á hljómborð í söngleikjum fyrir stærsta söngleikjafyrirtæki Hollands. Eftir að hafa flutt aftur heim til Íslands hefur Vignir komið víða við í íslensku tónlistarlífi, á tónleikum, sjónvarpsþáttum og hljómdiskum. Hann hefur unnið mikið í leikhúsum og verið hljómborðsleikari í söngleikjum og nú síðast hljómsveitarstjóri í söngleiknum Chicago sem sýnt var hjá Leikfélagi Akureyrar.

Vignir sinnir kennslu og meðleik við Tónlistarskóla FÍH, Menntaskóla í Tónlist (MÍT) og Listaháskóla Íslands.

Scott McLemore trommuleikari er fæddur í Virginíu í Bandaríkjunum og útskrifaðist 1997 með B.M. gráðu í jazztrommuleik frá William Paterson College í New Jersey. Hann bjó nær áratug í New York þar sem hann lék meðal annars með Sunnu Gunnlaugs, Ben Monder, Michael Kanan, Tony Malaby, Angelica Sanchez, Chris Cheek, George Colligan, Kerry Politzer, Mark Helias og Tim Berne. Scott er nú búsettur á Íslandi og hefur undanfarið leikið meðal annars með kvartett Kristjönu Stefánsdóttur, Gömmum, Elísabetu Eyþórsdóttur og kvartett Andrésar Þórs Gunnlaugssonar. Eftir hann liggja þrjár plötur sem leiðari; Found Music, Remote Location og The Multiverse, tíu plötur með Sunnu Gunnlaugs og fjöldinn allur af plötum sem meðspilari.

Marína Ósk Þórólfsdóttir, söngkonan og lagahöfundur, er fædd og uppalin í heimabæ íslenskrar rokk- og dægurlagatónlistar, bítlabænum Keflavík. Marína hefur komið víða við á sínum ferli og lærði m.a. jazzsöng í tónlistarháskólum í Hollandi og í Svíþjóð. Hún er þess utan eftirsótt rokk- og dægurlagasöngkona.  Marína Ósk hefur nú þegar sent frá sér tvær sólóplötur og er sú þriðja væntanleg árið 2025. Henni hlotnuðust Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir tónsmíðar sínar og hafa báðar plötur hennar þess utan hlotið tilefningar. Marína Ósk starfar sem söngkona, lagahöfundur og söngkennari í Listaháskóla Íslands.


Tónleikaröð Ellýjar er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, Menningarsjóði Reykjanesbæjar, Reykjanesapóteki, HS Orku og Samkaup í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Bókasafn Reykjanesbæjar og Hljómahöll.

Comments are closed.