Tónsmíðarnar á efnisskrá kvöldsins eru fæstar eldri en eins árs gamlar og litast margar þeirra af dvöl hans í New York-borg í bland við áhrif íslenskrar myndlistar og náttúru. Kvartettinn skipa, auk Guðjóns, Eyþór Gunnarsson á píanó, Nico Moreaux á kontrabassa og Einar Scheving á trommur.
Enginn aðgangseyrir og öll velkomin á viðburðinn
Guðjón Steinn Skúlason er ungur saxófónleikari og tónsmiður, uppalinn í Reykjanesbæ, sem hefur undanfarin ár verið að rísa upp á yfirborð íslensku djasstónlistarsenunnar sem einn efnilegasti, ungi djasstónlistarmaður sinnar kynslóðar. Hann hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar átta ára gamall og nam þar í átta ár, áður en hann flutti til Reykjavíkur og lauk þar framhalds- og stúdentsprófi frá Menntaskóla í tónlist eftir þriggja ára nám. Á menntaskólaárum sínum var Guðjón virkur í tónlistarlífi höfuðborgarinnar og kom reglulega fram með ýmsum hópum á ýmsum sviðum, þar á meðal má telja Stórsveit Reykjavíkur, Tómas R. Einarsson, Einar Scheving o.fl. Eftir útskrift úr MÍT um vorið 2023 flutti Guðjón til New York-borgar í Bandaríkjunum til að hefja þar háskólanám við hinn virta Manhattan School of Music þar sem hann hefur m.a. setið einkakennslu hjá Nicole Glover, Miguel Zenón og Caroline Davis.
Eyþór Gunnarsson hefur verið einn fremsti píanó- og hljómborðsleikari Íslands undanfarna rúma fjóra áratugi. Á sínum afkastamikla ferli hefur hann komið að gerð rúmlega 200 hljómplatna, ýmist sem spilari, útsetjari og upptökustjóri, og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin yfir tíu sinnum. Hann er einna þekktastur fyrir starf sitt í hljómsveitinni Mezzoforte sem hefur ferðast og spilað um allan heim áratugum saman og notið mikilla vinsælda en hann hefur einnig stafað með fjölda listamanna og hljómsveita bæði innanlands og erlendis.
Nico Moreaux er franskur bassaleikari sem hefur á síðustu árum verið afar virkur í íslensku djasstónlistarlífi en hann á sér einnig langan feril af atvinnutónlistarmennsku í París. Hann á sex útgefnar plötur sem leiðtogi en hefur alls spilað inn á 26 hljómplötur og einu sinni verið tilnefndur til Frönsku tónlistarverðlaunanna. Hann hefur deilt sviði með mörgum af fremstu djasstónlistarmönnum samtímans en þar á meðal má til dæmis telja Tigran Hamasyan, Jeff Ballard, Chris Cheek, Jorge Rossy og Dan Tepfer.
Einar Scheving er einn fremsti trommuleikari Íslands og hefur verið hornstólpi í íslensku tónlistarlífi frá unglingsaldri. Hann bjó um tíð í Miami, Florida, þar sem hann stundaði háskólanám í tónlist við University of Miami og lauk þar bæði bachelor- og mastersnámi, ásamt því að kenna við skólann. Hann á fjórar útgefnar hljómplötur undir eigin nafni en hefur leikið inn á fleiri en 100 plötur með ýmsum hópum og listamönnum í gegnum tíðina. Einar hefur margoft verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlotið þau fjórum sinnum.
Tónleikaröð Ellýjar er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, Menningarsjóði Reykjanesbæjar, Reykjanesapóteki, HS Orku og Samkaup í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Bókasafn Reykjanesbæjar og Hljómahöll.