Það verða áhugaverðir tónleikar í boði á Tónleikaröð Ellýjar þann 20. mars næstkomandi þegar tríóið DJÄSS gerir sér ferð í bítlabæinn og djassar upp lög eftir Gunna Þórðar.

DJÄSS er skipað Karli Olgeirssyni, Kristni Snæ Agnarssyni og Jóni Rafnssyni og hefur skapað sér nafn og sérstöðu með djassútsetningum á íslenskum rokk-, pönk- og dægurlögum. Sérstakur gestur á þessum tónleikum verður sænsk/íslenski trompetleikarinn Björn Atle Anfinsen.
Dagskrá tónleikanna mun samanstanda af nýrri tónlist frá DJÄSS, sem eru útsetningar við lög Gunnars Þórðarsonar, í bland við tónlist eftir Björn Atle og væntanlega fær eitthvað af lögum af fyrri plötum tríósins að fljóta með.
Tónleikarnir verða haldnir í Bergi fimmtudaginn 20. mars og hefjast klukkan 20.
Gengið inn um dyr tónlistarskólans.
Enginn aðgangseyrir á viðburðinn og öll velkomin.

Björn Atle Anfinsen byrjaði ungur að spila á trompet og að loknu hefðbundnu tónlistarnámi lauk hann BS-prófi frá Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi og í framhaldi af því, meistaranámi frá hinum virta skóla University of Music and Theatre í Hamborg í Þýskalandi. Síðastliðin ár hefur hann starfað með þekktum tónlistarmönnum á sænsku og evrópsku djasssenunni eins og Nils Landgren, Magnus Lindgren og Rasmus Faber. Árið 2017 gaf hann út sína fyrstu breiðskífu Fragment hjá útgáfufyrirtækinu Stockholm Jazz Records. Hann hefur komið fram á tónleikum víða um Evrópu og í Suður-Afríku, bæði sem hljómsveitarmeðlimur eða einleikari í mismunandi tegundum tónlistar, s.s. djassi, poppi, rokki og spuna.