Guðjón Steinn Skúlason, ásamt kvartett sínum, kemur fram í Bergi, Hljómahöll, að kvöldi 29. maí, þar sem flutt verður nýsamin tónlist Guðjóns. Tónsmíðarnar á efnisskrá kvöldsins eru fæstar eldri en eins árs gamlar og litast margar þeirra af dvöl hans í New York-borg í bland við áhrif íslenskrar myndlistar og náttúru. Kvartettinn skipa auk Guðjóns: Eyþór Gunnarsson á píanó, Nico Moreaux á kontrabassa og Einar Scheving á trommur.
Tónleikaröð Ellýjar er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, Menningarsjóði Reykjanesbæjar, Reykjanesapóteki og HS Orku í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Bókasafn Reykjanesbæjar.