Miles Davis

Ef hugsað er um eftirminnilega djasstónlistarmenn þá er ekki annað hægt en að muna eftir Miles Davis, einum mikilvægasta djasstónlistarmanni heimsins. Hann var amerískur trompetleikari og tónskáld sem fæddist árið 1926 og dó 1991. Á löngum fimm áratuga ferli náði hann að vera í fararbroddi margra nýrra stíla og stefna í djasstónlistarheiminum og færði okkur eitthvað af frábærustu tónlist tuttugustu aldarinnar.

Miles Davis lifði skrautlega og viðburðaríku lífi. Hann byrjaði að spila á trompet þegar hann var 9 ára gamall og lærði í Juilliard skólanum í New York City þegar hann varð eldri. Hann kláraði aldrei námið vegna þess að hann langaði til að vera í fullu starfi sem tónlistarmaður, og sagði að Juilliard legði of mikla áherslu á vestræna tónlist. Hann spilaði með ýmsum listamönnum fyrstu árin og þá mest í bebop, og “Cool” eða “West Coast” stíl og var hann meðal þeirra sem mótuðu þann stíl.

Í kringum 1950 háði Davis baráttu við heróínfíkn og glímdi við atvinnuleysi. Árið 1951 skrifaði hann undir samning við Prestige Records og þannig náði hann að borga fyrir fíkn sína og vændiskonur. Á þessum tíma tók hann upp eina af fyrstu “hard bop” tónlist sem til er, en eftir ákveðinn tíma fór fíknin að hafa áhrif á tónlistina hans. Hann sneri við blaðinu, flutti til New York aftur og gaf út tvær plötur sem hann sagði sjálfur að væru hans mikilvægustu, Miles Davis Quartet og Miles Davis Volume 2.

Eftir þessa frábæru endurkomu skrifaði hann undir langtímasamning við Columbia Records. Þá tók hann upp eitthvað af vinsælustu djasstónlist allra tíma, þar á meðal Milestones og Kind of Blue. Á eldri árum hans spilaði hann meira af nútímadjasstónlist, og gerði jafnvel tilraunir með rokk, fönk, afríska ryþma og elektróník. Hann olli miklum ádeilum en einnig varð hann valdur að miklum nýjungum í djasstónlist og djass “fusion”.