Saga djass á Íslandi

Djass á Íslandi á sér ekki mjög langa sögu, en þó lengri en flestir halda. Í þessari grein verður stiklað á stóru um hvernig djassinn kom til landsins fyrst, hverjir voru helstu áhrifavaldar í þeim málum og hvernig hann þróaðist. Djass þróaðist fyrst í Bandaríkjunum en kemur ekki fyrr en seinna til Evrópu. Þá kom hann fyrst til Bretlands og breiddist þaðan út yfir heimsálfuna.

Á tuttugustu öldinni gerðist mikið í tónlistarheiminum. Margir nýjir stílar komu fram, og af öllum hugsanlegum gerðum. Það var allt frá mínímalískum klassískum stíl, til tólf tóna tónlistar, og frá nýrómantískum rachmaninov til dansandi blús og djass tónlistar. Ísland var seint að grípa gæsina, eins og í mörgum efnum áður fyrr. Það var ekki fyrr en um 1930 þegar Hótel Borg var opnað við Austurvöll sem djassinn byrjaði að breiðast út. Hótel Borg réð jafnan breska tónlistarmenn og með því komu frægir djasstónlistarmenn til landsins og kynntu tónlistina fyrir landsmönnum. Úr þessu myndaðist ein af fyrstu djass stórhljómsveitum landsins, flestir tónlistarmennirnir voru frá Lundúnum en árið 1942 bættust við einir fyrstu íslensku djasstónlistarmennirnir: Sveinn Ólafsson á tenórsaxófón, Vilhjálmur Guðjónsson á klarinett og altósaxófón og Jóhannes Eggertsson á trommur, auk Höskuldi Þórhallssyni á trompet, Árna Björnssyni tónskáldi á píanó og Fritz Weishappel á bassa. Frá þeim kom fyrsta íslenska hljóðupptakan af djassi árið 1943.

Fyrir þetta hafði lítið gerst í djasstónlist á Íslandi, en djass var þó ekki alveg óþekktur fyrir þriðja áratuginn. Árið 1920 var tónlistin nefnd í fyrsta skipti í fréttamiðlum þar sem kom fram auglýsing frá Dansskóla Sigurðar Guðmundssonar. Skólinn var að hefja kennslu í amerískum djass dansi fyrir börn og fullorðna, og átti hann að vera “fljótt lærður, fallegur og þægilegur”.

Árið 1924 var djassband í fyrsta skipti auglýst í dagblaði, en það var ekki fyrr en mörgum mánuðum seinna sem kom fram í dagblaði að von væri á “djass áhöldum”, eða trommusetti til landsins. Louis Armstrong og Duke Ellington komu ekki í fréttum fyrr en 1933.