Kanye West (einnig þekktur sem Ye) á leið til Afríku

Kanye West átti að gefa út níunda plötuna sína, Yandhi, í byrjun október. Þremur dögum síðar var hann í Saturday Night Live og kallaði á afnám þrettánda viðaukans í stjórnarskrá Bandaríkjanna, sem endaði þrælahald – og platan hefur enn ekki orðið að veruleika.

Í viðtali við TMZ, útskýrði Kanye að hann hefði ekki lokið plötunni á tilsettum tíma; hann vildi fara til Afríku til að klára hana. “Ég þarf bara að fara og snerta jarðveginn … og hafa hljóðnemann á opnu svæði, svo ég heyri í náttúrunni á meðan við erum að taka upp. Ég fann þessa orku þegar ég var í Chicago. Ég fann ræturnar. Við verðum að fara til landsins sem kallast Afríka.”

West bætti við að platan komi út 23. nóvember, eftir að meðlimur stjórnendateymis hans lagði til að hann þyrfti meiri tíma. “Ég byrjaði að innleiða hljóð sem fólk hefur aldrei heyrt áður sem ýtir á hnappa og fær fólk til að hugsa um hluti sem er ekki talað um,” sagði West. “Það er talað um “body-shaming” og litið er niður á konur eftir því hversu mörgum þær hafa sofið hjá. Það er bara heil Ye plata.”

West útskýrði einnig athugasemdir sínar um 13. viðaukann, sem hneykslaði margt bandarískt tónlistarfólk, þar á meðal Lana Del Rey og Questlove. “Afnema var rangt orðaval,” sagði hann. “Það var rangt af mér að segja afnema. Breyta er rétt orð … Það sem er fallegt við stjórnarskrá okkar er að við getum breytt henni.” Hann hélt áfram að útskýra að hann hafi verið að vísa til þess sem kallast undantekningarákvæði 13. viðaukans – sem viðheldur þrælkunarvinnu í fangelsum Bandaríkjanna. “Fólk fær greitt átta sent á viku fyrir að vinna fyrir fyrirtæki sem eru í einkaeigu,” sagði West. “Margir þeirra eru ekki ofbeldisfullir glæpamenn og hafa ekki setið inni áður. Og svo erum við ekki að takast á við andlega heilsu og meðferð. Meirihluti fólks í fangelsi er þar vegna viðbragða við aðstæðum sem þau voru í.”